146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[14:48]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil taka undir með henni þegar hún talar um hið stóra sameiginlega verkefni mannkyns sem er að vinna að stöðvun hlýnunar jarðar. Það hefði sannarlega verið áhugavert ef við hefðum séð það stóra verkefni endurspeglast í þessari stefnu. En stefnan er þannig að klipið er í stór mál, sagt að þjóðin sé að eldast og það séu áskoranir þar, en lítið er sagt um hvernig taka eigi að á því. Við erum með vöxt í einni atvinnugrein sem hefur áhrif á efnahagsmálin en ekkert er talað meira um það. Við verðum því að bíða eftir fjármálaáætlun til að sjá hvernig taka á á málunum.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Hvernig finnst henni að farið sé með hlutverk fjármálaráðs sem meta á stefnuna? Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar er bara látið eins og fjármálaráð hafi ekki sagt neitt um stefnuna. Það gerir hins vegar mjög alvarlegar athugasemdir við hana. Meðal annars er sagt, með leyfi forseta:

„… stjórnvöld [geta] lent í spennitreyju fjármálastefnu sinnar ef atburðarásin reynist önnur en efnahagsspáin gerir ráð fyrir.“

Og það mælir með því að í staðinn fyrir punktmat, eina prósentutölu af vergri landsframleiðslu þegar verið er að tala um afkomu, hefði verið betra að skila einhverju bili ef menn treysta sér ekki í að fara í útreikninga á sveiflujöfnun.

Í raun er búið að ramma inn afkomuna, skuldirnar og útgjaldaþak. Það var ekki nauðsynlegt að setja útgjaldaþak. Ég spyr hv. þingmann: Hvað finnst henni um athugasemdir fjármálaráðs hvað þetta varðar og hvernig farið er með (Forseti hringir.) það ráð og það faglega mat?