146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[14:50]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Allur þessi umbúnaður um ný lög um opinber fjármál kemur ekki af himnum ofan. Það er langur aðdragandi sem hv. þingmaður þekkir vel frá sinni tíð sem fjármálaráðherra sem snýst um að ná betri tökum á fjárlagagerð og ábyrgara utanumhaldi um þessi mál hér á Íslandi. Þetta er að hluta til einhvers konar þörf á endurreisn íslenska samfélagsins í kjölfar hrunsins. Við þurfum að ná betri tökum á því hvernig við rekum hér samfélag. Það er mjög mikilvægt. Þegar ég tala hér með efasemdartóni um þessa lagaumgjörð er ég ekki að mæla með því að hún sé ekki fyrir hendi, sé engin.

En nákvæmlega það sem hv. þingmaður nefnir hér með fjármálaráðið, sem er afar mikilvægt aðhaldstæki á þessari leið, bæði fjármálaráðuneytisins og þingsins, þá finnst mér að þegar fram kemur að þessi dýrmæti vettvangur sérfræðinga, sem skilar af sér verulega ígrunduðu og góðu plaggi um þetta mál, er algerlega hunsaður í meðförum meiri hlutans, sýnir það manni hversu mikil sýndarmennska þetta allt saman er. Það er áhyggjuefni. Mér liggur við að segja að það sé betra að hafa ekki fjármálaráð og horfast þá bara í augu við það og segja það þá bara, vera heiðarlegur í sínu fúski fremur en að ætla sér einhverja fagmennsku og almennilegt utanumhald en hunsa þetta allt saman í raun og veru.

Fjármálaráð bendir á ýmsa þætti sem við höfum verið að gagnrýna hér í minni hlutanum, eins og það að við getum lent hér í spennitreyju, betra er bil en punktur, eins og hv. þingmaður nefnir hér, og ekki síður vangaveltur og spurningar um hverju sæti að fara að bæta útgjaldaþaki við aðrar þær takmarkanir sem leiða beinlínis af sér.