146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:01]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er auðvitað mikið umhugsunarefni þegar svona er í pottinn búið og kannski endurspeglar þessi skortur á forminu, umbúnaði málsins, líka þessa tímapressu sem hæstv. ráðherra undirgengst. Nýrri ríkisstjórn hefði verið í lófa lagið, í samráði við þingið, að búa um þessa óvenjulegu tíma á þann hátt að lengja innleiðingartímabilið þannig að það væri liprara utanumhald utan um þessi fyrstu skref þannig að þingið gæti sameiginlega farið í gegnum að prófa þetta nýja tæki frekar en að halda sig við tækið óbreytt eins og við værum í venjulegu árferði og kosningar hefðu verið á venjulegum tíma og ráðherrann hefði haft nægilegan aðdraganda til að leggja fram sína stefnu.

Í staðinn erum við með lög sem miða við það en tímalínu sem snýst um allt annað. Við fáum þá pappír sem er ekki í samræmi við þann ramma sem þingið hefur ákveðið.