146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:02]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Við höfum á liðnum vikum, í bráðum þrjá mánuði, hlustað á yfirlýsingar ráðherra, ekki síst ráðherra Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, reyndar samgönguráðherra líka, sem hafa verið með alls kyns yfirlýsingar um nauðsyn innviðauppbyggingar í þeirra málaflokkum, sem er kannski svolítið í samræmi við það sem menn töluðu um fyrir kosningar. Á sama tíma höfum við heyrt fjármálaráðherrann, sem talaði líka fyrir kosningar um nauðsyn innviðauppbyggingar á öllum þessum sviðum, tala með allt öðrum hætti. Nú þurfi verulegt aðhald og að leggja fram fjármálastefnu sem að hans mati er mikilvægasta mál, ekki bara þessa þings heldur kjörtímabilsins, stefnu sem okkur sýnist mjög mörgum að gangi þvert á allar hugmyndir um uppbyggingu. Þingmaðurinn nefndi loftslagsmál í ræðu sinni. Ég tók eftir því um daginn í ræðu hæstv. umhverfisráðherra að hún gaf ekki sérstaklega mikið fyrir sóknaráætlanir fyrri ríkisstjórnar í loftslagsmálum því að þær áttu að blása svo svakalega mikið upp. Þó voru verulegir fjármunir settir þar í fyrsta skipti í sóknaráætlun og tiltekin verkefni.

Ég tek undir með hv. þingmanni að það er nauðsynlegt fyrir okkur þegar við erum að afgreiða fjármálastefnu að sjá aðeins útfærsluna í fjármálaáætluninni. Það eru svo misvísandi skilaboð að koma frá ríkisstjórninni, frá einstaka fagráðherrum, eðlilega, þeir tala fyrir sínum málaflokkum. En síðan segja oddvitar ríkisstjórnarinnar að hér eigi allt að vera í ákveðnu frosti og fara eftir hagfræðikenningum og annað í þeim dúr. Spurningin er þessi: Hvenær á að fara í uppbyggingu ef ekki núna? Hefur þingmaðurinn (Forseti hringir.) engar áhyggjur af þensluáhrifum? Eða er þingmaðurinn með hugmyndir um hvernig hægt sé að minnka þensluáhrif en engu að síður fara í uppbyggingu á innviðum?