146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:09]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér finnst nú vera orðið svolítið þunnskipað hér í salnum hvað stjórnarliða snertir, með einni ánægjulegri undantekningu, sýnist mér, fyrir utan forsetastólinn, sérstaklega hvað varðar þátttöku t.d. hæstv. forsætisráðherra sem enn hefur ekkert sést í þessari umræðu svo ég viti. Og formaður fjárlaganefndar er ekki heldur hér í dag, en fjármála- og efnahagsráðherra má þó eiga að hann var hér dálítið í umræðunni í gær og fyrradag, í fyrri hluta hennar. Ef við eigum að taka mark á því á annað borð að hér sé á ferðinni eitt allra mikilvægasta mál hvers kjörtímabils ef ekki bara Málið, þá er þetta tómlæti stjórnarliða dálítið athyglisvert. Fylgir lítill hugur máli? Eru þeir ekkert stoltir af króganum? Ég verð að játa það án þess að lesa í svipbrigði manna eða áruna yfir þeim að ég upplifði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem einhvern veginn ekkert sérstaklega hamingjusaman hér í umræðum og andsvörum enda hefur hann sjálfsagt fengið þetta og meira tilbúið í hendur frá forvera sínum og embættismönnum fjármálaráðuneytisins þegar hann kom þangað inn og örfáum dögum seinna var plaggið komið hér inn á þing. Plaggið er nú saga til næsta bæjar. Stærsta mál kjörtímabilsins eru rúmar tvær arkir. Það kemst aðeins inn á níundu blaðsíðu þetta þunna plagg. Er þetta málið? Já, þetta er málið.

Við skulum aðeins líta í lögin um opinber fjármál. Ég er ekki alveg sammála túlkunum þar t.d. hvað varðar það að við núverandi aðstæður hefði ríkisstjórnin orðið að drífa inn þetta plagg til þess að geta svo lagt fram fjármálaáætlunina fyrir 1. apríl. Tökum t.d. eftir því hvernig fjallað er um fjármálastefnuna í 4. gr. laganna. Þar er sagt:

„Ríkisstjórn skal eftir að hún er mynduð móta fjármálastefnu sem ráðherra leggur fram á Alþingi í formi tillögu.“

— Skal eftir að hún er mynduð móta fjármálastefnu? Það er væntanlega ekki hugsunin samkvæmt orðanna hljóðan að ráðherrann eigi að koma að tilbúnu plaggi og henda því inn í þingið. Ný ríkisstjórn á að móta sína stefnu og auðvitað taka í það einhvern tíma.

Svo er sagt til viðbótar:

„Svo fljótt sem auðið er en þó eigi síðar en samhliða framlagningu næsta frumvarps til fjárlaga.“

Gefin er útgönguleið fyrir það í lögunum að ef ríkisstjórnarskipti verða á afbrigðilegum tíma þá er skjól í þessu lagaákvæði hvað það snertir að ríkisstjórnin getur beðið með það fram að framlagningu næstu fjárlaga. Að vísu þýðir það þá að fjármálaáætlun kemur fram án þess að styðjast við fjármálastefnu, en ég les þetta þannig að við sérstakar aðstæður geti það gerst — kannski er meira verið að hugsa hér um ríkisstjórnarskipti að vori, en engu að síður er það þannig að við þessar aðstæður eiga menn að gefa sér tíma og ætla sér svigrúm í þessu.

Síðan kemur 7. greinin, sem er auðvitað lykilgrein í þessu, þ.e. skilyrði fjármálastefnu og fjármálaáætlunar. Þau skilyrði töldum við í Vinstri grænum of stíf, að svigrúmið til að beita ríkisfjármálunum sérstaklega á tímum erfiðleika og niðursveiflu væri þrengt of mikið. Með því bæði að afmarka tímann innan fimm ára þannig að það verði að vera afgangur af ríkissjóði eða jöfnuður þýðir á mannamáli að ef menn vilja beita ríkisfjármálunum til örvunar í hagkerfinu og til að mýkja áföll þá hafa þeir ekki til þess nema tvö, þrjú ár að fara niður fyrir strikið því að þeir verða að bæta það upp með afgangi til þess að ná jöfnuði á fimm árum. Það má aldrei fara í meira en 2,5% halla.

Hvernig hefði nú fjármálaregla dugað eftir hrun? Auðvitað hefði henni verið hent til hliðar og við vitum það. En þegar ríkið fer í dúndrandi 14% halla af vergri landsframleiðslu 2008 og tæp 10% 2009 var ráðgjöfin sú að láta þann halla hafa sinn gang, fyrst um sinn a.m.k., til þess að dempa hagsveifluna. Við fórum að vísu ekki eftir því sem betur fer, Íslendingar, og tókum upp fjárlögin strax á miðju ári 2009, en það er önnur saga. Síðan er annað viðmið þarna en þessi fimm ár og 2,5% af landsframleiðslu, það er skuldahlutfallið 30% af vergri landsframleiðslu. Er þetta nú ekki nóg?

En út á hvað gengur plaggið hér? Að setja viðbótarreglu inn sem við eigum að vera bundin af næstu fimm árin, þ.e. að ríkisútgjöldin fari aldrei yfir 41,5% af vergri landsframleiðslu, það séu hin opinberu útgjöld? Þar bætist sem sagt þriðja skilyrðið við. Þetta eru heildarútgjöld til hins opinbera. Þau mega samkvæmt þessu aldrei vera meiri en 41,5% af vergri landsframleiðslu. Það þýðir einfaldlega að jafnvel aðgerðir sem myndu rúmast innan fjármálaskilyrðanna í lögunum geta verið ómögulegar út af þessum þröskuldi. Útgjöldin eru um 41% á líðandi stundu. Það er 0,5% svigrúm til að beita ríkisfjármálunum.

Tökum nú bara árið 2019. Herra forseti, ég tek það fram að ég ætla ekki að gerast spámaður, en segjum sem svo að ójafnvægið haldi áfram að hlaðast upp í hagkerfinu, raungengi styrkist jafnvel frekar en veikist og það endar með stórum skelli árið 2019 þar sem landsframleiðslan hættir allt í einu að aukast ef ekki dregst saman þar sem tekjur ríkisins falla, eins og gerist við slíkar aðstæður þar sem atvinnuleysi vex, útgjöld aukast af þeim sökum og þar sem tilfærslukerfin verða dýrari vegna þess að væntingar um hagvöxt og launahækkanir ganga ekki eftir. Ég þekki hvernig þetta getur gerst. Á svipstundu snúast aðstæðurnar algerlega við; tekjurnar falla, útgjöldin aukast, og þá lækkar viðmiðunin eða stendur í stað. Hin verga landsframleiðsla er þá óbreytt eða jafnvel minnkandi. Þannig að núverandi útgjöld gætu með smá samdrætti landsframleiðslunnar þýtt að við rækjumst á þakið, 41,5%. Þá gætum við ekki einu sinni rekið ríkissjóð með 2,5% halla árið á eftir til að mýkja áfallið af því að við værum komin í hitt þakið.

Ef það gengur nú eftir að við náum okkur niður í eða niður fyrir 30% skuldaviðmiðið á árinu 2019 erum við ekki í neinum vandræðum af þeim sökum. Þá væri skuldastaða ríkisins það góð að við gætum látið það eftir okkur að beita ríkisfjármálunum til að milda sveiflur. En hinar girðingarnar myndu loka okkur af. Það er algerlega fráleitt. Þetta er að mínu mati stærsta málið hér vegna þess að þó að áætlunin sé ónýt að öðru leyti og mæti á engan hátt væntingum um uppbyggingu innviða og eflingu velferðarkerfisins, þá er hitt svo óendanlega vitlaust, að ætla að negla sig niður fimm ár fram í tímann með viðbótargirðingum, að ég skil ekkert hvað mönnum gengur til. Þetta er í algeru ósamræmi við það að við vorum að reyna að lenda þessari mikilvægu löggjöf um opinber fjármál í samstöðu hér. Því miður skildi leiðir vegna þess að þáverandi stjórnarflokkar náðu ekki saman við okkur sem vildum hafa svigrúmið ívið meira. Það voru nú ekki stórvægilegar breytingar á fjármálareglunni sem við vorum að fara fram á. Við vildum helst hafa tímabilið sjö ár en ekki fimm ár og svigrúmið aðeins meira. Skuldaþakið, jú, en við hefðum alveg sæst á tiltölulega litlar en aðeins mildandi breytingar til minnkunar þessu. Ég segi það fyrir mitt leyti ég var tilbúinn til þess að leggja mitt af mörkum til þess að reyna að lenda þessu í sátt.

Þessi ágreiningur lá fyrir, það náðist ekki að brúa hann, því miður, en hann var í sjálfu sér ekki stórvægilegur. Hann snerist um að hafa þetta ekki of niðurneglt og hafa aðeins meiri keynesisma inni í þessu.

Hvað gerir þá núverandi ríkisstjórn þegar hún kemur með plaggið inn? Hún færir þetta í burtu. Hún eykur gjána á milli þeirra sem hafa meira keynesísk sjónarmið að leiðarljósi þegar þeir nálgast þessi mál og hinna dogmatísku hægrimanna sem hér ráða greinilega för. Þetta er algerlega að fara í öfuga átt. Við erum að auka ágreininginn um þetta í staðinn fyrir að reyna að minnka hann og brúa hann. Það væri strax til bóta að mínu mati að henda út þessum 4. tölulið tillögunnar um skuldaþakið. Það væri framlag til sátta af hálfu stjórnarflokkanna. Mér skilst að það sé nú sem betur fer breytingartillaga um það, en ég hef ekki heyrt í þeirra máli að þeir væru mikið á þeim buxunum að ná saman um nokkuð.

Að lokum tek ég svo undir það að það er langeðlilegast að þetta mál bíði opið þangað til við höfum séð fyrstu ríkisfjármálastefnuna og getum þá skoðað þetta aðeins í samhengi, enda fer enginn tími forgörðum í þeim efnum. Og það er ekkert sem segir eða kallar á það endilega að klára þetta mál og greiða um það atkvæði áður en hitt kemur (Forseti hringir.) fram, vegna þess að það er alveg ljóst að það er að koma og breytist ekkert úr þessu. Þess vegna held ég (Forseti hringir.) að við eigum að leyfa þessu að standa opnu og helst þannig að umræðunni hafi ekki lokið, herra forseti.