146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:22]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég get alveg tekið undir þær skilgreiningar að núna sé hægri-hægri stjórn en áður hafi verið hægri-miðjustjórn, svona í tilteknum hlutföllum. Okkur fundust að vísu miðjuhorfin voðalega veik á síðasta kjörtímabili en við skulum vera sanngjörn og segja að þau hafi verið til staðar. En núna er þetta svona hægri-hægri eitthvað.

Hvers vegna setja menn þetta þak í viðbót við hin fjármálaskilyrðin sem voru umdeild og þóttu mjög stíf, reyndar ef ég veit rétt einhver þau stífustu á byggðu bóli? Það er mjög góð spurning. Er hitt ekki nóg? Hvaðan kom hugmyndin? Er hún frá núverandi fjármála- og efnahagsráðherra eða annars staðar frá? Ég held að þetta sé nýfrjálshyggjan, hörðu nýfrjálshyggju-hægri öflin vilja hafa þetta þak þarna vegna þess að þau geta síðan nýtt sér það í ýmsum tilgangi, t.d. með því að mæta alltaf erfiðleikum með niðurskurði en ekki tekjuöflun, t.d. með því að segja: Ef við ætlum að gera eitthvað meira þá verðum við að selja eignir á móti því o.s.frv. Það er verið að leggja grunn að (Forseti hringir.) og ryðja brautina fyrir harða nýfrjálshyggju-hægri stefnu.