146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:23]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég geti tekið undir þessi sjónarmið og að þetta hljóti að vera ástæðan fyrir því að menn setji sér svona þröngar skorður. Það er alveg rétt að þegar við settum þessar fjármálareglur inn þá höfðum við Framsóknarmenn áhyggjur af því að þær væru of stífar, væru ekki nægjanlega sveigjanlegar, en vildum hins vegar gjarnan ná ákveðnum aga og tökum á ríkisfjármálunum á sama tíma og hér voru, að því er okkur varðaði, spár um að hagvöxtur myndi vaxa og við værum að fara inn í efnahagslega blómsturstíma. Nú aftur á móti erum við á toppi hagsveiflunnar. Þá er auðvitað mjög sérkennilegt að menn setji sér svo harðar reglur. Það er auðvitað spurning, eins hv. þingmaður varpar fram og ég get alveg tekið undir, hvort það sé gert til þess að smíða ramma sem menn geti ekki farið fram úr og þess vegna verði þeir að beita nýfrjálshyggjuaðferðum, (Forseti hringir.) til þess að aðlaga ríkisfjármálin að efnahagslegu ástandi á þeim tíma.