146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:39]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ef ég man rétt svaraði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í andsvari um þetta útgjaldaþak og taldi að það myndi ekki skipta neinu máli þannig lagað vegna þess að það yrði hagvöxtur hér næstu árin og þetta væri nógu vítt til þess að það gæfi svigrúm. En auðvitað mun þakið bíta þegar kreppir að. Eins og fram hefur komið má ekki breyta stefnunni næstu fimm árin nema eitthvað hræðilegt gerist. Það er ekki bara að það sé ósveigjanlegt og reglurnar séu ósveigjanlegar og búið sé að bæta í þær, heldur er líka talað um það í stefnunni með greinargerðinni að tekjur og gjöld eigi að vaxa í takt við hagvöxtinn og þar með er um leið búið að taka sjálfvirku sveiflujöfnunina algjörlega úr sambandi. Það er ekki aðeins með reglunum heldur líka með þessu. Ég vil spyrja hv. þingmann út í þetta, hvort hann telji það ekki vera mikinn galla að sjálfvirka sveiflujöfnunin skuli vera tekinn úr sambandi?