146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:42]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Það er ekki auðvelt að blanda sér inn í þessar umræður, þær eru á háu og góðu plani, en ekki að öllu leyti mín sérþekking. Ég vildi heldur standa hérna og ræða um innviði eldstöðva eða líkur á eldgosi. Ég ætla nú ekki að vera að spá neinum náttúruhamförum sem eiga víst erindi inn í þetta ágæta plagg sem er hér til umræðu og er óskaplega mikilvægt en mér rennur auðvitað blóðið til skyldunnar og ætla að gera mitt besta.

Þessi þingsályktunartillaga um fjármálastefnu hefur verið gagnrýnd á marga vegu, t.d. vegna mögulegrar einkavæðingar lykilkerfa í samfélaginu sem ég er sannfærður um að meiri hluti þjóðarinnar vill ekki. Það hefur líka verið gagnrýnt fyrir skattstefnu sem byggir á vörn fyrir stóreignafólk og fjármagnseigendur í efri kantinum og auðmenn í efri flokkum tekna. Ég nefni til skýringar að í tíu flokka hagkerfi Hagstofunnar yfir tekjur er það þannig að fólk í þremur efstu tekjuflokkunum tekur við um helmingi tekna. Þegar kemur að fólki sem tekur við fjármagnstekjum, tekur 1% þess við 44% af þeim, þær eru upp á 95 milljarða. Það er svo augljóst mál að opinber fjármálastefna sem tekur ekki mið af þessu á ekki mikið erindi til þjóðarinnar í raun og veru.

Ég ætla að halda mig á hugmyndafræðilegu nótunum og fjalla um eitt af þessum fjórum hugtökum sem ég eyddi fyrri ræðu minni í gær til þess að fjalla um og stansa við þetta hugtak sjálfbærni enn einu sinni, því það er bæði misnotað og misskilið og jafnvel mistúlkað. Ég ætla að taka mið af framsetningu á grunnstefnu í þingsályktunartillögunni. Þar er sagt sem svo að gæta þurfi að sjálfbærni í opinberum fjármálum. Ég sagði í gær að þetta hugtak væri að mínu mati þarna nokkurn veginn til skrauts vegna þess að það er ekki skilgreint neins staðar nánar en það hvað eiga menn við. Ég minnist þess ekki að neinn úr stjórnarflokkunum, þingmaður hvað þá ráðherra, hafi fjallað um þetta annað en bara að nefna þetta orð sjálfbærni í einhverri ræðu. Í raun og veru þykir mér það miður sem nýjum þingmanni að sjá ekki hér fleiri ráðherra, jafnvel alla ráðherra, taka til máls um þetta grunnplagg ríkisstjórnarinnar, hvort sem það er hæstv. umhverfisráðherra eða fjármálaráðherra eins og verið hefur, eða hæstv. samgönguráðherra. Það er í raun ekki mjög réttlætanlegt að þeir geri það ekki og eru heldur ekki í salnum nema í mýflugumynd lítinn hluta úr degi, nema jú, ég vil taka hattinn ofan fyrir hæstv. fjármálaráðherra í gær. Hann stóð sig vel.

Ég spyr: Sjálfbærni í opinberum fjármálum, hvað þýðir það? Það er fleiri en ein skilgreining til á orðinu eða hugtakinu sjálfbærni, hvað þá sjálfbærni í fjármálum og hvað þá sjálfbærni í opinberum fjármálum. Allt botnar það í ólíkri hugmyndafræði, við gleymum því stundum. Ég kallaði þetta í gær að plaggið væri plagg um pólitíska hagfræði. Þar kemur hugmyndafræðin inn. Þetta eru ekki hlutlæg vísindi eins og jarðfræðin sem ég minntist á áðan, heldur pólitísk og huglæg hugmyndafræðileg stefna, getum orðað það þannig. Þetta sést ágætlega ef maður ber saman fyrirtæki og samfélag. Sumir segja stundum: Það er ekkert mál að reka Ísland, það er bara eins og að reka stórt fyrirtæki. Það segir kannski sitt um þá sem segja það, en fyrirtæki er venjulega rekið þannig að menn horfa fyrst og fremst á hag fyrirtækisins. Ég er ekki að gera lítið úr góðri mannauðsstjórnun eða einhverjum snert af samfélagsábyrgð, heldur er það venjulega þannig að fyrirtækið er lifibrauð eigendanna og þeir taka fyrirtækið númer eitt, tvö og þrjú. Samfélagið, sem er risastór eining, faðmar allt líf fólks allra í samfélaginu. Það eru liðin átta ár frá hruni. Stór ævihluti margra Íslendinga hefur liðið með stórsködduðum innviðum og stórsködduðu velferðarkerfi. Fólk margt er orðið ósköp þreytt og allt of margir eru reiðir. Það er gjörólíkt að horfa framan í samfélagið, þessa stóru lifandi einingu sem faðmar alla, og bera það svo saman við stórt alþjóðlegt fyrirtæki sem sennilega gæti haft jafn marga starfsmenn og íslenska þjóðin.

Við ræðum pólitíska hagstjórn. Mér finnst stjórnin falla á prófinu. Hvert er þá prófið? spyr einhver. Það er einfaldlega að það verður að taka tillit til velferðar og lífsskilyrða fjöldans í samfélaginu. Þar á hið opinbera að beita sér af alefli í að þau lífsskilyrði og sú velferð sé jafnt og þétt að batna eins og ytri skilyrði leyfa. Þá fyrst erum við að tala um sjálfbær opinber fjármál. Lykillinn að því að opinber fjármál séu sjálfbær er að beita skattkerfi til jöfnuðar en treysta ekki á hagsveiflur, treysta ekki á eitthvað sem við gætum kallað excel-skjal í fyrirtæki án mikillar samfélagslegrar ábyrgðar.

Í þessu plaggi er skrifað um óbreytt eða óbreytanlegt fimm ára þak á árleg heildarútgjöld hins opinbera, þau fari ekki yfir 41,5% af vergri landsframleiðslu. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ræddi þetta hér áðan, en ég hef engan heyrt, ekki svo ég muni, tala um hvaða rök eru nákvæmlega fyrir þessari tölu. Er hún vel rökstudd? Er þetta ekki bara meðaltal nokkurra ára? Mig minnir jafnvel að sú hafi verið skýringin sem ég heyrði af munni einhvers hæstv. ráðherra af hverju þessi tala er þarna. Ef við erum farin að reka þjóðfélagið á meðaltölum fyrri ára þá held ég að við séum ekki á réttri leið.

Herra forseti. Vissulega eiga ríkisfjármál að vera varfærin, en í þágu hvers? Allra segi ég. Það er ekki hægt að hugsa sem svo að það geti verið til hagsbóta fyrir alla, þótt ég hafi notað það orð hér, þá tala ég eins og hver annar stjórnarþingmaður, vegna þess að þjóðfélagshópar sitja ekki allt í kringum borðið með sömu stöðu. Nokkrir hópar sitja við háborðið en við hin skör neðar. Ríkisfjármálin verða að taka mið af þessari staðreynd og leita í þá átt að rétta þessa mismunun, kalla fram jöfnuð án þess að eðlilegt frelsi sé skert. Þá væri eitthvert blik af sjálfbærni í öllu saman.

Sjálfbær opinber fjármál eiga að leiða til sjálfbærni samfélagsins sjálfs. Það er ferli sem tekur ár eða áratugi. Ef við lítum á þrjár undirstöður sjálfbærni í íslensku samfélagi, auðlindanýtingu eða landnýtingu og sjávarnýtingu, við lítum til samfélagsins og við lítum til fjármála, þá er það þannig að auðlindanýting er í sumum greinum nálægt því að vera sjálfbær en ekki öðrum, t.d. alls ekki ferðaþjónustunni. Við þurfum að stefna þangað vegna þess að við viljum ekki hafa hagvöxt í gangi á Íslandi sem byggir á ofnýtingu. Ef við lítum til samfélagsins sjálfs sem á að vera lífrænt og dafnandi þá er það vissulega sums staðar en ekki alls staðar.

Það er margbúið að minnast hér á ákveðinn mælikvarða sem er fátækt og vandamál margra þjóðfélagsþegna að láta enda ná saman. Í fjármálum vantar félagslegar lausnir sem gagnast fjöldanum Við höfum ekki efni á svona hagstjórn í fimm ár, ekki einu sinni í eitt eða tvö ár.