146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:53]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég átta mig ekki alveg á þessari veðurfræðilegu spurningu. Það tala allir stjórnmálaflokkar og stjórnvöld um sjálfbært samfélag við þau skilyrði sem hér eru, hvernig sem þau eru landfræðilega eða veðurfræðilega. Það er alveg ljóst að ef sú hugsun smitar ekki inn í allar gerðir, hvort sem það eru opinber fjármál, sveitarstjórnir, samfélagið sjálft, okkur sjálf, allar gerðir okkar, vegna þess að þetta er, eins og er margbúið að tyggja hér, lykilatriði til allrar framtíðar, þá er auðvitað illa farið. Ég kann ekki formúluna en ég veit að þau grunnhugtök sem ég nefndi í sjálfbærni, þ.e. umhverfisleg eða náttúrufarsleg sjálfbærni, samfélagsleg sjálfbærni og efnahagsleg sjálfbærni, verða öll að koma inn í hverja einustu stóru ákvörðun, hvort sem Alþingi tekur hana eða ríkisstjórn, það er búið að nefna það áður. Ég get ekki ímyndað mér hvort ég hafi svarað hv. þingmanni nægilega skýrt.