146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:55]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þykist vita að hv. þingmaður er sjómaður að einhverju leyti, þess vegna eru honum þessir vindar mjög kærir. Í alvöru er um að ræða hagkerfi sem er háð hinum og þessum duttlungum. Það er erfitt að halda hér uppi stöðugu hagkerfi vegna legu landsins, vegna þess að hér eru fiskigöngur og ólíkt árferði hjá virkjunum með vatnsbúskap og hvað eina. Það þýðir í sjálfu sér að það er okkar vandamál að bregðast við því með sjálfbærni í huga og öllu sem að því lýtur. Það er þá ólíkt hjá samfélögum sem búa við mjög stöðugt veðurfar, stöðugar auðlindanytjar o.s.frv. Þetta hefur fylgt Íslendingum í þúsund ár, við höfum ekki kunnað þetta sérstaklega vel en höfum núna tæki og tækni og vonandi hugmyndafræði til þess að gera það betur.