146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:29]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Mér finnst að mörgu leyti gott að við séum hér tveir sagnfræðingar að ræða um þessi mál. Ég hef oft velt fyrir mér hvort það væri ekki landi og þjóð til heilla ef til væri nokkurs konar sagnfræðingaráð sem færi yfir mistök fortíðar í því skyni að hægt væri að forðast að endurtaka þau því að sagan virðist hafa tilhneigingu til að fara í hringi.

Eins og hv. þingmaður kom ágætlega inn á stöndum við núna frammi fyrir enn einum hringnum þegar kemur að einkavæðingu. Ég verð að játa að ég hafði ekki hugmyndaflug til að leita fyrir mér í umbótaskýrslu Sjálfstæðisflokksins og þakka hv. þingmanni kærlega fyrir lesturinn úr henni. En nú horfum við einmitt á þessa fjármálastefnu, þetta mesta og mikilvægasta plagg hverrar ríkisstjórnar eins og hér hefur verið sagt af stjórnarliðum, þótt þess sjái ekki stað í umræðunum og áhuga á þeim, með útgjaldaþaki, með óljósri stefnu um sölu ríkiseigna, óvissu um verðmæti þeirra eins og segir í umsögn ASÍ sem hv. þingmaður vitnaði í. Á leiðinni í enn eitt einkavæðingarferlið þar sem virðist sem eigi að treysta á að í þessu óvissuástandi bjargist einhvern veginn allt. Það virðist vera eina nýjungin eða það eina sem menn reiða sig á þegar kemur að tekjuöflun fyrir ríkið.

Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í þetta. Við höfum komið aðeins inn á einkavæðingu bankanna hina fyrri sem við vorum að ræða í morgun í skýrslu. Telur hann að þetta sé ábyrg fjármálastjórnun sem (Forseti hringir.) núverandi stjórnvöld guma gjarnan af, að róa út á þessi mið, þennan fimm ára túr, byggða á þessari miklu óvissu?