146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:32]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé andsvarið og vil byrja á að taka undir þessi orð hans um sagnfræðingana. Nú er það svo að í þessum gríðarlega uppgangi í efnahagslífinu sem var fyrir 10–15 árum voru iðulega dregnir fram á sjónarsviðið álitsgjafar sem áttu að segja til um framtíðina. Horfur, var það kallað. En horfur er náttúrlega bara annað orð fyrir framtíðina.

Þessir ágætu menn, jafn lærðir og þeir voru, jafn heiðarlegir og heiðvirðir og grandvarir menn og þeir voru, og konur, höfðu ekki spádómsgáfu. Þeir höfðu oftar en ekki gráður í hagfræði og viðskiptafræðum, góðar gráður, prýðilegar gráður efast ég ekki um. En þeir töldu sig oftar en ekki þess umkomna að geta svarað fyrir um hvernig framtíðin yrði, hvernig hitt og þetta myndi nú þróast.

Sagnfræðingar voru aldrei spurðir. Sagnfræðingar eru jú svolítið uppteknir af fortíðinni, ég veit það og hef tekið eftir því að hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé er þar á sömu slóðum og ég. En við verðum auðvitað að hugsa um fortíðina og læra af fortíðinni til þess að geta skipulagt framtíðina. Þar er ég kominn að svarinu sem ég þykist vita að þingmaðurinn viti að muni verða neikvætt. Við verðum að passa okkur á að róa varlega út á þessi óljósu mið út í ólgusjó einkavæðingar í framtíðinni. Það er alveg á hreinu.