146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:39]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér fannst einkar vel til fundið hjá hv. þingmanni að eyða svo drjúgum tíma ræðu sinnar í að rifja upp hvernig fór með fyrri einkavæðingu bankanna. Það væri í raun eitthvað skrýtið ef við stæðum í þingsal í dag, og kannski ekki síður í gær þegar fréttir bárust, og tengdum þessi mál ekki saman vegna þess að það er aftur sala á hlut eða jafnvel bönkum í heilu lagi sem virðist grundvöllur þeirrar fjármálastefnu sem hér er lögð fram.

Ég ætla að leyfa mér að vitna í álit meiri hluta hv. fjárlaganefndar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Einn af veigamestu óvissuliðunum á tímabilinu sem stefnan nær til tengist sölu eigna ríkissjóðs, einkum hlutdeildar þeirra í viðskiptabönkunum.“

Svo segir, með leyfi forseta:

„Ljóst er að niðurgreiðsla á skuldum ríkisins ræðst að miklu leyti af því hvernig til tekst með sölu þessara eigna.“

Nú langar mig að spyrja hv. þingmann. Burt séð frá því hvort við erum sammála um hvort og jafnvel hvenær selja eigi bankana og látum alla hluti liggja á milli hluta, getur það talist gott líkan fyrir fjármálastefnu að byggja alla áætlun sína á því að þú verðir að geta selt eignarhlut þinn? Hvaða stöðu setur það íslenska ríkið í gagnvart tilvonandi kaupendum?