146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:46]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hið síðara andsvar. Ég er hjartanlega sammála hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur í þessu máli. Þetta er arfaslæm pólitík. Þetta er hættuleg spennitreyja. Þingheimur hefur kannski heyrt að ég notaði orðið spennitreyja. Það er ekki mín hugmynd. Þetta orð stendur einmitt í umsögn fjármálaráðs. Það er það hugtak sem þeir ágætu aðilar notuðu, að nú væri ríkissjóður í ákveðinni spennitreyju og hefði ekki nægilegt svigrúm.

Hv. þingmaður talaði um að við skulduðum þjóðinni. Það er alveg rétt. Þingmenn og ríkisstjórn skulda þjóðinni fagleg vinnubrögð. Það er nefnilega þannig að þjóðin skuldar enn eftir hrunið gríðarlegar fjárhæðir. Við erum núna að kljást við að borga þær niður. Íslenskur almenningur má enn bera það ok. Það ok er til komið af því að ráðamenn á sínum tíma áttuðu sig ekki á því að þeir væru skuldbundnir þjóðinni til þess einmitt að gera þetta faglega og vel.