146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:54]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég get ekki orða bundist og kem því hingað upp. Ég skil vel að hv. þingmenn stjórnarliðsins vilji ekki vera hér og reyni að verja þessa stefnu, vilji kannski sem minnst kannast við hana. En það er einfaldlega þannig að það eru nokkrir aðilar sem bera meiri skyldur en hinn almenni stjórnarliði. Til að mynda hæstv. fjármálaráðherra, sem ég veit að var hér viðstaddur umræðuna framan af í gær og fyrradag, formaður fjárlaganefndar eða í það minnsta einhverjir úr fjárlaganefnd sem væru tilbúnir að bregðast við, í það minnsta að hlusta. Nú þekkjum við að menn geta svo sem setið á skrifstofunum sínum og hlustað, hæstv. forseti. En það er bara ekki það sama og að vera til staðar í þingsalnum, geta gripið inn í, leiðrétt ef menn kjósa að gera svo, en auðvitað helst að taka þátt í umræðunni. Ég kalla eftir því þar sem ég ætla að halda ræðu hér á eftir að hæstv. forseti athugi (Forseti hringir.) hvort eitthvað af þessu fólki geti verið viðstatt ræðuna.