146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:31]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta yfirferð yfir þetta mál. Ég deili mörgum af sjónarmiðum hans. Mig langar að nýta mér aðeins þá reynslu sem hv. þingmaður hefur umfram mig, og reyndar marga fleiri hér, til að ræða aðeins málefni sveitarfélaganna. Ég veit að hv. þingmaður starfaði á þeim vettvangi.

Eins og hv. þingmaður nefndi er í meirihlutaálitinu komið inn á ýmislegt hvað varðar málefni sveitarfélaganna. Þar segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn bendir á að ósamræmd framsetning á uppgjöri getur kallað fram misræmi á milli fjármálastefnu og uppgjörs sveitarfélaga.“

Hér er hálfpartinn verið að agnúast út í framkvæmdagleði sveitarfélaganna, minnt á að sveitarfélögin þurfi að muna að óumdeilt hlutverk þeirra er að ná tökum á opinberum fjármálum og því „æskilegt að samhliða ábyrgri markmiðssetningu um afgang hjá ríkinu verði samhliða unnið að því sama hjá sveitarfélögunum.“

Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að þessi fjármálastefna, ramminn um hin opinberu fjármál næstu fimm ár, virki í samstarfi við sveitarfélögin? Hér hvetur meiri hluti hv. fjárlaganefndar sérstaklega til þess að samstarfsvettvangur sveitarfélaga og ríkis taki þessi mál til endurskoðunar. Ég er sammála hv. þingmanni að það er furðulegt að eftir allt það sem hér er komið inn á skuli meiri hlutinn leggja til að málið sé samþykkt óbreytt.

Hvernig telur hv. þingmaður að sveitarfélögin muni taka þessari stefnu? Mun í raun ganga að framfylgja henni gegn vilja sveitarfélaganna?