146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:42]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þótti mjög mikilvægt fyrir nokkrum árum að við settum mjög skýran ramma í fjármálastefnu og sýndum fram á aga til þess að við gætum skilað miklum afgangi til að lækka skuldir og vaxtabyrði, sem þá var orðin einn stærsti liðurinn í útgjöldum ríkisins, um 90 milljarðar, til að skapa svigrúm og ef við gætum lækkað skuldir og værum komnir með þær í 60–70 milljarða værum við búin að skapa 20–30 milljarða svigrúm til innviðafjárfestingar, hvort sem væri í framkvæmdir eða aukna þjónustu í rekstri. Nú held ég að við séum á þokkalegum stað í dag ef okkur tekst að viðhalda hagsveiflunni jákvæðri einhver ár fram í tímann, við gætum nýtt það og greitt skuldirnar hægar niður en engu að síður náð býsna góðum árangri. Og fara í þeim tilgangi í skynsamlegar fjárfestingar sem skila arði, sem hafa minni þensluáhrif en sumar fjárfestingar. Við ættum jafnvel að velta því fyrir okkur að nota hluta af þessu fjármagni sem við myndum ekki nota til að greiða svona hratt niður skuldirnar til þess að mynda öflugan stöðugleikasjóð sem væri sveiflujafnandi og hefði áhrif á að gengið væri stöðugra.

Það eru svona hlutir sem ég hefði viljað sjá í fjármálastefnu. Að menn væru að hugsa um hvernig við gætum búið til meiri stöðugleika, mildari lendingu. Því að lokum munum við fara niður. Það er óhjákvæmilegt að einhvern tíma mun hagsveiflan jafnast og fara niður. Við þekkjum það.

Mér finnst skorta á og mér finnst það sláandi að í þessu plaggi meiri hlutans er ekkert fjallað um gengi eða háa vexti. Og þar af leiðandi að engin stefna sé í fjármálastefnu til fimm ára sem svarar þeirri risaáskorun sem við stöndum akkúrat frammi fyrir núna og höfum gert í nokkra mánuði og megum engan tíma missa í að bregðast við.