146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:46]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á síðustu dögum mínum í forsætisráðuneytinu setti ég á laggirnar hóp til að skoða áhrif sífellt sterkara gengis á samkeppnishæfni Íslands, á einstakar atvinnugreinar og aðra þætti sem lúta að ríkisfjármálum og efnahagsmálum. Hópurinn skilaði af sér í lok janúar einum níu tillögum. Ég hef spurt nokkrum sinnum í óundirbúnum fyrirspurnum forsætisráðherra og fjármálaráðherra hvenær sé að vænta einhverra aðgerða á grundvelli þessa. Mín skoðun er sú að við megum engan tíma missa. Þetta gerist svo hratt. Efnahagslífið er í svo miklum krafti. Ef við bíðum of lengi munu kannski aðgerðir sem hefðu getað gengið fyrir tveimur, þremur mánuðum ekki virka.

Ein aðgerðanna var til að mynda afnám hafta strax. Nú er hún komin, en hún hafði bara engin áhrif. Meðan vaxtastig í landinu er svona hátt verður stöðugt innstreymi, hvort sem er af ferðamannagjaldeyri sem enn streymir inn, sem er jákvætt, en einnig munu menn alltaf reyna að finna leiðir til að fara í háa vexti, þ.e. fjárfestar alheimsins, þótt við höfum lokað fyrir ákveðna leið í júní í fyrra, sem var mjög gott að gera.

Ég hef svolitlar áhyggjur af því, heilt yfir, að þessi ríkisstjórn, með svona lítinn meiri hluta, sé hrædd við að taka á stóru málunum, hafi ekki stuðning til að fara þá leið sem hún vill fara. Og þrátt fyrir orðagjálfur um samstarf, samvinnu og samráð kunni hún það ekki eða vilji það ekki.

Ég hef líka áhyggjur af því að pólitísk stefna ríkisstjórnarinnar sé á hinn bóginn raunverulegt athafnaleysi sem síðan valdi því að þegar allt er komið í hönk segi menn: Ja, ef við þurfum að leggja þennan veg, verður þá ekki bara fólkið að borga fyrir hann? Það eru engar aðrar leiðir til.

Ég hef áhyggjur af að það sé hin raunverulega stefna sem við horfumst í augu við (Forseti hringir.) og þetta plagg sé ein birtingarmynd þess.