146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:01]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir tvær góðar spurningar. Þetta er alveg rétt. Ég er áhugamaður um meiri upplýsingar en minni. Ef við hefðum fengið skýrari forsendur hefðum við auðvitað getað unnið þessa vinnu betur. Ég sé að við erum ekki með eitt, ekki tvö, ekki þrjú, ekki fjögur heldur fimm álit úr nefndinni, fimm nefndarálit. Það þýðir að nefndin hefur ekki einu sinni getað talað sig niður á að vera með fjórar, þrjár, eða jafnvel tvær skoðanir um þetta mál, heldur urðu þær að verða fimm, sem segir mér að vinnan hefur ekki verið unnin. Það er augljóst að vinnan hefur ekki verið unnin vegna þess að það hafa ekki legið gögn fyrir. Fólk hefur ekki getað gert sér grein fyrir því hvaða stefnu er í rauninni verið að taka með þessari svokölluðu stefnu. Þegar við vorum í stjórnarmyndunarviðræðum fengum við alveg gríðarlegt magn upplýsinga frá fjármálaráðuneytinu í formi glærukynninga sem sagði okkur ýmislegt um hvernig hagkerfinu liði. Hvar er það hér? Hvar er kynningin og hvar er hugmyndin um það hvert við erum að fara inn í þessu? Af hverju komast þær hugmyndir ekki til skila? Það er það sem mig langar að vita. Ég spyr hv. þingmann á móti: Hvers vegna er þetta svona?

Varðandi markmiðin. Ég er algjörlega sammála að það vanti markmið Parísarsamkomulagsins inn í þetta. Eigum við að tala um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, sem eru alveg ágæt og vantar svolítið inn í þessa framtíðarsýn? Það fer ekki rosalega vel á því að það séu einhvers konar tómhyggjumenn, tæknisinnaðir peningahyggjumenn, ég veit ekki einu sinni hvað maður á að kalla þetta fólk, sem leggja fram svona hugmyndir án þess að taka tillit til samfélagsins sem liggur þar undir. Ég bara skil þetta ekki, herra forseti. Ég skil þetta ekki.