146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:08]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir afskaplega gott að heyra að hæstv. forsætisráðherra skuli sjá sér fært að eiga orðastað við Seðlabankann. Það er frábært. Mér þætti enn þá betra ef hann gæti séð sér fært að koma hér og eiga samtal við okkur.

Svo ég svari spurningu hv. þingmanns, og ég þakka fyrir þessa spurningu vegna þess að hún er svolítið kjarni málsins, þá er svarið nei. Það er ekkert í þessari stefnu sem bendir til þess og það hefur komið svo oft fram að það er eiginlega vandræðalegt að svara þessari spurningu aftur. En nei, það mun ekkert geta gerst, það mun ekki nein uppbygging geta átt sér stað vegna þess að til viðbótar við það að ekki skuli koma fram nein hugmyndafræði um hvernig framtíðin eigi að líta út í þessari svokölluðu stefnu þá kemur fram mjög kaldlynt viðhorf til samfélagsins þar sem skortir uppbyggingu á innviðum, uppbyggingu á getu okkar til þess að mennta næstu kynslóðir, getu okkar til þess að sjá um eldra fólk og fólk sem þarfnast meiri hjálpar. Það er ekkert eftir þegar það er búið að taka 1,6% af vergri landsframleiðslu frá til þess að borga niður skuldir og þegar það er búið að setja útgjaldaþak upp á fjörutíu og eitthvað prósent, hvað sem það var. (Gripið fram í.) Það er ekkert eftir. Þessi stefna gengur út á það að rýja samfélagið inn að skinni.

Ég er algjörlega talsmaður þess að við höldum mjög þétt utan um efnahagsstjórn og þétt utan um ríkisfjármál. Við eigum ekki að reka ríkið með endalausum halla og endalausri skuldasöfnun. Það á ekki að gera. Það væri óskynsamlegt. Samfélagið sem liggur undir verður alltaf að vera í forgangi vegna þess að annars búum við til verra samfélag. Ég hef ekki áhuga á því að búa í verra samfélagi.