146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:11]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þetta svar. Það vakti athygli mína í ræðu hæstv. forsætisráðherra að hann játaði auðvitað að ríkisstjórnin fyndi fyrir þessum þrýstingi við gerð fimm ára fjármálaáætlunar. Hún áttar sig á því að það er auðvitað alls staðar þörf fyrir fjármagn eins og við þekkjum. Hann talar um að það sé þjóðhagsleg hagkvæmni fólgin í hverju verkefni fyrir sig en, með leyfi forseta, „hið sama er ekki hægt að segja um verkefnin þegar þau eru lögð saman. Þá kemur að hinum beiska efnahagslega veruleika.“ Svo segir hann í framhaldinu að forgangsröðunin byggist á stjórnarsáttmálanum og talar einmitt bara um heilbrigðisþjónustuna en ekki hitt.

Ég hitti gamlan Sjálfstæðismann sem er núverandi Viðreisnarmaður sem hafði miklar áhyggjur af því að formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra hefði verið að boða skattalækkanir á fundi úti í bæ í gær og hafði miklar efasemdir um það og taldi að hér væru uppi ýmis merki sem svipaði til þess sem var að gerast fyrir hrun. Getur þingmaðurinn tekið undir það?