146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:12]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvað maður á að segja. Það er ótrúlegt að maður skuli fá fréttir af fyrirhuguðum skattalækkunum hæstv. forsætisráðherra utan úr bæ. Það var ekkert rosalega ofarlega á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar að mig minnir að fara í einhverjar lækkanir. Þau hafa þvertekið fyrir ýmiss konar lækkanir. Ég hef að vísu spurt hæstv. fjármálaráðherra út í hugsanlegar lækkanir á tryggingagjaldi. Ég er ekki hlynntur því að viðhalda háskattastefnu, en að fara í einhverjar skattalækkanir á þessum tímapunkti er kannski ekki skynsamlegt og sér í lagi ekki í ljósi þessarar fjármálastefnu svokallaðrar sem hefur ekki í sér neina tryggingu fyrir því að við munum geta borgað fyrir allt sem við þurfum að borga fyrir til þess að geta haldið kerfunum í gangi. Nei, ég tek undir þetta. En mér finnst þetta eiginlega vera frekar ömurleg stefna sem maður er að frétta utan úr bæ.