146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:19]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir spurninguna.

Þetta tekjuútgjaldaþak mun væntanlega leiða af sér að ef verg landsframleiðsla fer minnkandi með einhverju móti getum við lent í því að þurfa að fara í niðurskurð ef þessi stefna á að halda. Það er vond hugmyndafræði og ég er á móti henni. Þegar við horfum á þessi ruðningsáhrif ferðaþjónustunnar og aðrar breytingar, þá hefur þjónustujöfnuður farið hækkandi í veldisvexti undanfarin ár, og sumir halda því fram að það muni halda áfram. Aðrir sem eru, held ég, raunsærri sjá fyrir sér að það muni jafnast út sem einhvers konar S-bylgja á næstu mánuðum eða árum. Þegar það gerist þá er spurning hversu mikill skaði er skeður. Vegna þess að á móti hefur útflutningsjöfnuður farið minnkandi að einhverju marki og neyslujöfnuður hefur verið að aukast. Við gætum því verið að horfa fram á mjög neikvæða mynd (Forseti hringir.) ef svo fer fram sem horfir. Það er ekki niðurstaða sem ég held að við getum sætt okkur við. Þar af leiðandi þurfum við einmitt að fara að ræða (Forseti hringir.) um peningastefnu landsins samhliða þessu.