146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:50]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að byrja að segja eitt. Mig minnir að bæði hv. þingmenn Viðreisnar og hv. þingmenn Bjartrar framtíðar hafi talað mjög mikið í aðdraganda kosninga um mikilvægi samtals og samvinnu og, eins og hv. þm. Þórhildur Sunnar Ævarsdóttir bendir á, þeir hreykja sér einmitt af því að koma úr atvinnulífinu, séu góðir samningamenn og allt þetta. Ég ætla ekki að draga það í efa. Hins vegar stingur það svolítið í augun þegar maður sér og heyrir að þessir samningar takist ekki og það séu teknar einhliða ákvarðanir. Undanfarin ár hefur stöðugt verið bætt við verkefnin til sveitarfélaganna. Við getum ekki bæði aukið kröfur á sveitarfélögin og ekki átt samtal við þau hvernig við ætlum að hafa tekjuskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga.