146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:51]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að velta því upp við hv. þingmann hvort hann telji heilt yfir að þessi fjármálastefna feli í sér innviðauppbyggingu í landinu. Ef ekki hvernig sér hv. þingmaður þá fyrir sér að hægt sé að fara í öfluga uppbyggingu á öllum þeim sviðum sem hún nefndi í sinni ágætu ræðu? Á að skera niður? Á að fara í einkaframkvæmdir, kannski með lífeyrissjóðunum? Leggja vegtolla á? Eða á að afla tekna hjá þeim sem hafa bökin til að bera það, leggja á auðlindaskatt og hátekjuskatt og annað því um líkt? Sér hv. þingmaður mun á þessari stefnu frá því hún var í ríkisstjórn og var að undirbúa hana og á stefnunni með fingraförum nýrra flokka, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar?