146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:55]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Kærar þakkir fyrir andsvarið að nýju, hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir. Já, ég verð að segja það hér að sérstaklega eftir afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár, 2017, þar sem þingmenn settu mark sitt á fjárlagavinnuna og fylgdu fjármagninu eftir, þá hef ég áhyggjur af því hvernig hv. þingmenn eiga að geta stýrt fjármagninu þangað sem það á að fara. Gerð hefur verið athugasemd við að það skorti á gagnsæi, að ekki sé auðvelt fyrir hv. þingmenn og einstaklinga að bera saman fjárlög undanliðinna ára og fjárlög sem unnin eru eftir nýju fyrirkomulagi. En það er ábyrgðarhlutverk hv. þingmanna að leita leiða til að afla tekna ef aukið svigrúm vantar til innviðauppbyggingar. Ég vona að allir hv. þingmenn og ég þar á meðal munum einbeita okkur að því.