146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[19:01]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Í ræðu sem ég hélt í gær um þetta sama mál, þ.e. tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu fyrir árin 2017–2022, lagði ég í máli mínu áherslu á þrjú atriði fyrst og fremst. Það var hvort þær forsendur sem gefnar væru upp í fjármálastefnunni væru raunhæfar og byggðar á traustum grunni og ég komst að því að svo væri ekki. Þá velti ég því fyrir mér hvers vegna hefði ekki verið tekið neitt tillit til athugasemda fjármálaráðs og fannst það skrýtið að það væri ekki gert. Svo velti ég því einnig upp hvenær gott væri að selja banka og það er í það minnsta mín niðurstaða að það sé ekki gott að selja banka þegar maður er búinn að koma sér í þá stöðu að maður þarf nauðsynlega að fá peningana til þess að stefna manns geti gengið eftir.

Eins og hv. þingmenn heyra bar ég upp spurningar og svaraði þeim sjálf. Það er svolítið þannig sem þessi umræða hefur verið, hæstv. forseti, vegna þess að þó svo að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hafi verið hér framan af umræðunni og tekið þátt, setið hér í þingsalnum og tekið öðru hvoru þátt í umræðunni með andsvörum, þá hefur hann ekki sést í umræðunni í dag og heldur ekki aðrir ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn. Þetta er mjög bagalegt. Þetta er vont fyrir umræðuna þegar við sem gagnrýnum þessa stefnu stöndum hér og tölum bara við okkur sjálf. Við verðum eiginlega að gera það vegna þess að það eru margir lausir endar. Það er rosalega mörgu ósvarað um þessa stefnu og vegna þess að þetta er þetta stóra stefnumótandi plagg hæstv. ríkisstjórnar þá ber okkur skylda til þess að kryfja það og ræða, jafnvel þó að hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn meiri hlutans sjái ekki sóma sinn í því að vera hér og taka þátt í umræðunni með okkur.

Mig langar í ræðu minni í dag að nota tíma minn til þess að fjalla um atriði sem ég hafði ekki tíma til að koma inn á í gær. Það eru loftslagsmálin og tengsl þessarar fjármálastefnu til ársins 2022 við aðra risastóra stefnu, sem þjóðir heimsins hafa sett sér og utanríkisráðherra Íslands skrifaði undir fyrir hönd Íslands í París fyrir ekkert svo löngu síðan, sem er áætlun um það hvernig við ætlum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og koma í veg fyrir það að jörðin okkar hlýni upp úr öllu valdi og við missum algjörlega stjórn á aðstæðum. Þetta er grafalvarlegt mál og ég tel að mér beri skylda sem stjórnmálamaður á 21. öld til þess að skoða öll mál í ljósi Parísarsamkomulagsins og hvernig við ætlum að bregðast við þeim aðstæðum sem því miður hafa teiknast upp í loftslagsmálunum. Þess vegna hefði verið svo gott að hafa hæstv. umhverfisráðherra í þingsalnum til þess að taka þátt í umræðunni og ég kallaði raunar eftir því fyrr í dag en hef ekki fengið nein svör við því hvort hæstv. ráðherra hafi fengið að vita af því að hennar væri óskað í umræðunni. Það hefði verið gott að hafa hana núna til þess að útskýra það fyrir mér hvernig þessi fjármálastefna rími við Parísarsamkomulagið. Ég skil það nefnilega ekki.

Það segir í nefndaráliti frá meiri hluta hv. fjárlaganefndar að áframhaldandi hagvöxtur sé meginforsenda stefnunnar. Gott og vel. Hvernig rímar það við loftslagsmarkmið? Ég fæ ekki betur séð en að ef okkur á að takast að ná tökum á stöðunni þá þurfi í raun að draga saman, það þurfi að framleiða minna en við gerum núna. Ég myndi gjarnan vilja fá útskýringu á því hvernig eigi að ná markmiði um áframhaldandi hagvöxt en ná líka fram markmiðum Parísarsamkomulagsins.

Ég persónulega, ef ég hefði verið að skrifa þessa stefnu, hefði lagt áherslu á hagsæld fremur en hagvöxt. Það tengist auðvitað svo beint inn í pólitískt inntak þessarar stefnu því hagsæld byggir á því að allir í samfélaginu geti haft það gott, hagsældin sé fyrir alla, en til þess að það gangi upp þurfum við að hafa sterka innviði. Þá þurfum við að hafa sterkt velferðarkerfi, þá þurfum við að hafa sterkt menntakerfi. Annars verður velferð og menntun forréttindi þeirra sem hafa peninga til þess að greiða fyrir þjónustuna.

Mér finnst mjög óþægilegt að ekkert sé tæpt á því hvernig við ætlum að ná tökum á loftslagsmálunum í þessari stefnu. Það eru engar greiningar, það er ekkert sem bendir til þess að það hafi neitt verið skoðað hvernig þessar tvær stefnur geti tengst.

Ef við skoðum dagskrá þessa þingfundar, sem ég er nú hrædd um að hafi eitthvað riðlast þar sem klukkan er orðin rúmlega sjö, þá eru þrjú þingmál á dagskrá, þ.e. mál nr. 7, 8 og 9 á dagskránni, sem tengjast umhverfismálum. Þetta eru raunar allt EES-reglur, en það er bara fínt, því þær fjalla allar á þröngan afmarkaðan hátt, sumar reyndar talsvert víðan, um tiltekin atriði sem þarf að hafa í lagi sem tengjast umhverfismálum. Þetta er mál um meðhöndlun úrgangs og ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, varnir gegn mengun hafs og stranda og hollustuhættir og mengunarvarnir, svo er 9. málið um loftslagsmál. Ég er hrædd um að ef við ætlum að ræða það sem tengist loftslagsmálum og hvernig við ætlum að draga úr losun í svona litlum afmörkuðum boxum þá verði okkur ekkert ágengt. Það er þess vegna sem ég kalla eftir því að þetta þurfi að skrifast inn í hina stóru fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar.

Það hefur oft verið talað um að það þurfi að gera áætlun um það hvernig við ætlum að draga úr losun til ársins 2030. Þessi fjármálastefna á að taka til ársins 2022. Þá verða bara átta ár í árið 2030 komi. Þetta er nefnilega svo ótrúlega nærri okkur. Þess vegna verð ég að segja að þetta er í rauninni algerlega marklaust plagg, eða það sem jafnvel væri enn verra; að undirskrift Íslands og þær skuldbindingar sem við tókumst á hendur í París með undirritun á Parísarsamkomulaginu sé algjörlega marklaus undirskrift.