146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[19:13]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Mér þykir rétt eins og hv. þingmanni þessi stefna vera byggð á sandi og talsvert vanta upp á upplýsingar til þess að við getum myndað okkur raunverulega skoðun á því sem hún felur í sér. Raunar hef ég einna helst áhyggjur af því að hún feli ekki í sér nokkurt svigrúm til þess að bregðast við ef t.d. loftslagsbreytingar eða önnur náttúruvá, sem getur steðjað að landi okkar, skellur á og veldur hér einhverju tjóni, þar er hvergi gert ráð fyrir einhvers konar svigrúmi. Nú veit ég að lög um opinber fjármál gera ríkisstjórninni kleift að endurskoða fjármálastefnuna ef eitthvað hrikalegt kemur fyrir. Getur hv. þingmaður tekið undir það með mér að það séu frekar léleg vinnubrögð að reiða sig á það að henda stefnunni og byrja upp á nýtt í stað þess að íhuga hvernig brugðist skuli við í neyðartilfellum, þ.e. að endurskoða stefnuna með því að búa til nýtt skjal í staðinn fyrir að hafa einhvers konar svigrúm?