146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[19:15]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef við ætlum að bregðast við því og gera eitthvað til þess að koma í veg fyrir hlýnun jarðar þá má ekki byrja seinna en í dag að gera alvörustefnu og áætlanir þar um. Það verður allt of seint að bíða þess að allt sé komið í kaldakol og myndu reyndar margir segja að við séum nú þegar komin á mjög slæman stað. Þau rök ein og sér finnst mér nægjanleg til að ýta þessari stefnu til hliðar og hugsa málin upp á nýtt. Ef við hugum að aðeins minna drastískum atriðum eins og þeim sem við sem ein þjóð getum tekið á, líkt og vegakerfinu okkar, þá erum við nú þegar komin út á ystu nöf þar vegna þess að ekki hefur verið sett nægjanlegt fjármagn í vegakerfið mörg undanfarin ár, (Forseti hringir.) þannig að þar eru vegirnir farnir að drabbast niður og innviðirnir okkar farnir að skemmast. Það er önnur og kannski minni ástæða fyrir því að segja að þessi (Forseti hringir.) stefna gangi ekki heldur.