146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[19:19]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst skrýtið að hafa stefnu sem gerir í rauninni alltaf ráð fyrir auknum vexti í öllu, það skiptir engu máli hvort það heitir ferðamenn eða eitthvað annað, en þetta er góður punktur sem hv. þingmaður kemur með. Við getum ekki treyst á það að ferðamönnum muni endalaust fjölga. Það getur alveg komið hrun í því. Svo er líka annað sem við höfum ekkert rætt og er viðkvæmt, held ég, fyrir marga og það er að ferðamannaiðnaðinum fylgir líka gríðarleg mengun. Það er partur af því hvernig við eigum að takast á við loftslagsbreytingar vegna þess að við getum ekki litið fram hjá því að það að flytja fólk, eins skemmtilegt og það er að fara á milli landa, er gríðarlega mengandi.