146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[19:21]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir mjög góða ræðu. Hún kemur inn á loftslagsmálin og ég er sammála henni að það væri til mikilla bóta og er í rauninni nauðsynlegt ef komið væri inn á þau í þeirri fjármálastefnu sem við ræðum hér. Það er mjög sérstakt að við getum ekki séð hvernig við eigum að standa við okkar skuldbindingar eins og Parísarsamkomulagið.

Mig langar að spyrja hvort hún sé ekki sammála mér um að hér sé um að ræða talsvert marklaust plagg því við þurfum líklega að taka þessa stefnu upp ef einhver vá steðjar að, ef við tölum nú bara um eldfjöllin okkar eða einhverjar náttúruhamfarir innan lands sem gætu átt sér stað, vonandi ekki. Er það ekki dálítið marklaust plagg ef ekki er gert svigrúm fyrir að bregðast við ef eitthvað kemur upp?