146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

beiðni um sérstaka umræðu.

[15:05]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Ég tek undir það sem aðrir hv. þingmenn hafa sagt um skipulagsleysið hér. Þetta er rosalega áhugavert, að koma ekki málum á dagskrá, ekki síst þar sem ég hef ítrekað staðið hér og beðið um að fá að sjá dagskrána fyrir fram. Við höfum sagt að okkur sé það algjörlega að meinalausu að dagskráin hnikist til þegar við fáum hana fyrir fram. En núna lendum við í því trekk í trekk að fá upplýsingar um dagskrárliði fyrir fram þrátt fyrir að dagskráin almennt liggi ekki fyrir. Svo þegar við erum búin að undirbúa okkur er okkur bara rutt til hliðar vegna þess að þá þarf ríkisstjórnin að koma einhverju af sínum málum að. Við verðum að fá einhvers konar fyrirsjáanleika í þetta mál, við verðum að geta treyst því sem við fáum að vita um það sem er til umræðu á næstunni. Þá á ég bæði við sérstakar umræður og fyrirspurnir til hæstv. ráðherra.