146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

beiðni um sérstaka umræðu.

[15:13]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Það er rétt að það hefur verið talsvert mikið um sérstakar umræður undanfarið. En það er einfaldlega út af því að ríkisstjórnin hefur ekki haft neitt annað til að tala um. Stjórnarandstaðan er svo gott sem búin að halda uppi virðingu þingsins undanfarna mánuði, svo ekki sé meira sagt, einfaldlega út af því að ríkisstjórnin hefur ekki náð að koma sér saman um það hvaða mál hún ætlar að koma fram með. Við sjáum hér gamla drauga frá síðasta kjörtímabili sem koma fram núna. Af hverju var ekki hægt að koma með þessi mál fyrr?

Virðulegi forseti. Skipulagsleysi af hálfu ríkisstjórnarinnar skapar ekki neyðarástand af okkar hálfu. Við viljum halda uppi virðingu þingsins þegar kemur að því t.d. að ræða þjóðhagslega mikilvæg mál eins og t.d. málefni fátæktar er. Þótt við höfum haft margar sérstakar umræður einfaldlega út af því að ríkisstjórnin gat ekki farið — ég ætla nú ekki að segja orðið sem mér datt í hug — gat ekki komið sér saman um hvaða mál ættu að vera afgreidd úr ríkisstjórn fyrr en núna þá er (Forseti hringir.) það ekki okkar vandamál. Við viljum halda áfram að fá sérstakar umræður á dagskrá, (Forseti hringir.) alveg sama þótt við höfum fengið margar sérstakar umræður á undanförnum tveimur mánuðum til að halda uppi virðingu þingsins.