146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

beiðni um sérstaka umræðu.

[15:18]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka undir með síðasta ræðumanni, hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur. Það hefði verið hægt að ræða um fátækt núna meðan við ræðum fundarstjórn forseta. Auðvitað kemst ein svona sérstök umræða á dagskrá, það tekur ekki nema 34 mínútur ef allir flokkar taka þátt í henni. Það er vissulega rétt að margar sérstakar umræður hafa verið á dagskrá á umliðnum vikum. Mér finnst það gott. Mér finnst það reyndar gott óháð því að það hafi verið vegna þess að ekki var um neitt annað að ræða en þingmannamál. Við eigum líka að vera að ræða málefni líðandi stundar og fátækt er svo sannarlega slíkt mál. Þess vegna finnst mér hneisa ef ekki á að koma þessari sérstöku umræðu á dagskrá núna, helst í dag en alla vega í þessari viku, sem og að taka inn fleiri sérstakar umræður í þessari viku. Eins og ég segi: Þetta tekur ekkert mjög langan tíma, en þetta er mikilvægt fyrir íslenskt samfélag.