146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

beiðni um sérstaka umræðu.

[15:24]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir þetta með tímann sem fer í sérstakar umræðu. Rétt rúmur hálftími hefði verið nýttur í hana í staðinn fyrir fundarstjórn forseta. Það er viðbúið að fólk verði áfram óánægt ef ekki verður breyting á. Það verður settur fundur hér eftir að fyrirspurnafundi lýkur. Á honum eru 17 mál. Þar af eru 13 EES-innleiðingar. Það er nú obbinn af því sem verið er að koma með hér inn á borð, breyting á Einkaleyfastofunni, breyting á endurskoðun. Þetta eru allt lítils háttar mál utan kannski eitt. Það er ekki það sem er að tefja þingstörfin hér. Þau mál koma örugglega til með að renna nokkuð ljúflega í gegn.

Virðulegur forseti. Sérstakar umræður eru mikilvægar vegna þess að þar kemur vel fram hver stefna ráðherra er hverju sinni (Forseti hringir.) í málaflokknum. Ég verð að taka undir og segja aftur að við erum hér með fjármálaáætlun og -stefnu sem nær ekki utan um þessi mál.