146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

beiðni um sérstaka umræðu.

[15:25]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Ég greip á lofti það sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir sagði um að við viljum ekki að það sé fundarfall hérna á þinginu. Ég er algjörlega sammála því. Við verðum að hafa í huga að það hefur nú þegar orðið fundarfall hér í heila viku nema að það fundarfall var kallað nefndavika, nefndavika þar sem nánast engir nefndarfundir voru haldnir, það varð ítrekað fundarfall. Þetta var hreinlega nefndavika til þess að fela það að það var ekki komið fram nógu mikið af málum frá hæstv. ríkisstjórn til þess að við hefðum eitthvað að gera hérna á þingi.

Nú erum við komin fram yfir þau tímamörk sem voru sl. föstudag á því hvenær ný mál geta komið fram. Fyrir vikið tók ég saman hvað hefði komið frá hverjum ráðherra. Það var ekki mikið, frú forseti, það var alls ekki mikið. Sumir ráðherrar hafa skilað nákvæmlega núll frumvörpum. Núll. Pælið í því. Þetta þýðir að við getum alveg horft fram á fundarfall í framtíðinni ef þingmannamál minni hlutans eru ekki tekin fyrir í meira mæli en nú hefur verið gert.