146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

orð ráðherra um peningamálastefnu.

[15:29]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Talsvert hefur verið rætt um peningastefnu samfélagsins að undanförnu, eftir að hæstv. ráðherra lýsti því yfir þann 1. apríl, sem kannski er viðeigandi dagsetning, í viðtali við Financial Times að núverandi ástand væri óverjandi. Nú er okkur öllum hér inni kunnugt um afstöðu hæstv. ráðherra, sem einnig er formaður í stjórnmálaflokki, hvaða afstöðu sá flokkur og ráðherrann hefur sem stjórnmálamaður gagnvart gjaldmiðlinum. En þegar hæstv. ráðherra lýsir því yfir í krafti síns embættis að staða peningamála og gjaldmiðilsins sé óforsvaranleg er það annað mál enda er ráðherra ekki aðeins stjórnmálamaður, hann er líka embættismaður.

Í kjölfarið hleypur hæstv. forsætisráðherra upp til handa og fóta til að bera til baka orð hæstv. fjármálaráðherra, en fyrirsögnin á frétt Financial Times er, með leyfi forseta:

„Iceland weighs plan to peg krona to another currency.“

Fyrirsögnin á Bloomberg þar sem hæstv. forsætisráðherra er í viðtali er:

„Iceland Won't Peg Currency for Foreseeable Future, PM Says.“

Ég velti því fyrir mér: Telur hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að krytur hans og hæstv. forsætisráðherra í alþjóðlegum miðlum auki trúverðugleika íslensks efnahagslífs? Okkur hefur orðið mjög tíðrætt um trúverðugleika í ljósi þess að við erum að byggja okkur upp eftir erfiða kreppu. Hvernig nákvæmlega telur hæstv. ráðherra að þessar krytur auki trúverðugleikann? Telur hann slíkar yfirlýsingar samræmast stöðu sinni sem ráðherra fjármála og efnahagsmála?