146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

orð ráðherra um peningamálastefnu.

[15:34]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég spurði hæstv. ráðherra hvort hann teldi að slíkar yfirlýsingar, sem kalla á andsvör frá hæstv. forsætisráðherra, samráðherra hæstv. fjármálaráðherra, væru til þess fallnar að auka trúverðugleika íslensks efnahagslífs. Hæstv. ráðherra kemur hér upp og segir að hann geri ekki athugasemdir við það að hæstv. forsætisráðherra andmæli honum.

Nú er það svo að hæstv. ráðherra er ekki aðeins fulltrúi ákveðinnar stjórnmálastefnu, hann er líka fulltrúi stjórnvalda, embættismaður stjórnvalda, talandi inn í heim þar sem miklu skiptir að viðhalda trúverðugleika íslensks efnahagslífs. Við höfum tekið eftir því að erlendir fjárfestar standa t.d. ekki beinlínis í biðröðum eftir að kaupa íslenska banka. Þá skiptir máli að ráðamenn vandi orð sín. Hæstv. fjármálaráðherra segir í þessu viðtali að óbreytt staða sé óverjandi. Hann er því í raun og veru búinn að gefa sér niðurstöðu þeirrar peningastefnunefndar sem þegar hefur verið skipuð með pomp og prakt og átti að hafa mikið samráð við alla þingflokka. Núverandi ástand er óverjandi. (Forseti hringir.) En ég spyr þá aftur: Telur hann að þessar krytur þeirra ráðherra auki trúverðugleika íslensks efnahagslífs? (Forseti hringir.) Og telur hann að það auki trúverðugleika íslensks efnahagslífs ef hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra þarf að útskýra orð sín sérstaklega eftir að þau hafa birst í erlendum miðli?