146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

áform um sölu á eignarhlut ríkisins í bönkunum.

[15:36]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að spyrja út í þau orð hæstv. forsætisráðherra sem hann lét falla hér í óundirbúnum fyrirspurnatíma fyrir u.þ.b. tveimur vikum þar sem orðrétt kom fram, með leyfi forseta:

„Það eru engin sérstök áform um sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka og Landsbanka.“

Síðan kemur í ljós, við umræðu í þingsal um fjármálastefnu til fimm ára, að það eru samt sérstök áform um að selja hlut í Íslandsbanka og Landsbanka. Með leyfi forseta, sagði formaður hv. fjárlaganefndar, hv. þm. Haraldur Benediktsson, í andsvari:

„Í raun grundvallast fjármálastefnan mjög mikið á því hvernig okkur tekst að losa eigur ríkissjóðs í fjármálafyrirtækjum. Þar af leiðandi er svarið: Já, við ætlum að losa eigur ríkisins í fjármálafyrirtækjum á stefnutímabilinu.“

Virðulegi forseti. Hvernig má það vera að einn daginn séu engin sérstök áform — eru það þá ósérstök áform eða er hæstv. fjármálaráðherra að reyna að dansa í kringum þetta til að tala til tíðarandans hverju sinni, hvort einkavæða eigi bankana eða ekki. Á að einkavæða þessa banka? Er fjármálastefnan ekki áform, er hún ekki áætlun, er hún ekki um það hvert við stefnum? Ég verð að spyrja hæstv. fjármálaráðherra aftur hvort einhver áform liggi fyrir um sölu á eignarhlut ríkisins, eignarhlut þjóðarinnar, í Íslandsbanka og Landsbanka. Eru þau til staðar, liggja fyrir drög eða undirbúningsvinna að þessu leyti? Er hæstv. fjármálaráðherra ekki sammála mér í því að fjármálastefnan hljóti þá að teljast drög, undirbúningsvinna, þar sem fjármálastefna til næstu fimm ára virðist grundvallast á því að selja banka?