146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

áform um sölu á eignarhlut ríkisins í bönkunum.

[15:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Það vill svo til að ég held að ég hafi svarað þessari spurningu fjórum sinnum í umræðu um fjármálastefnuna og geri það með ánægju einu sinni enn. Í fjármálastefnunni er gert ráð fyrir tekjum af eignum ríkisins árlega upp á u.þ.b. 35 milljarða kr. Þessar tekjur gætu komið af arðgreiðslum, sérstökum arðgreiðslum eða sölu eigna. Arðgreiðslur frá bönkum í ár, sem ríkið á núna að öllu leyti, eru rúmlega 35 milljarðar kr. og er ekkert ólíklegt að þær gætu orðið álíka miklar á komandi árum þannig að það er enginn sérstakur þrýstingur á að selja bankana.

Þegar ég sagði það hér að það væru engin áform uppi um að selja þessa hluti í bankanum núna, og ég get staðið við það, þá hef ég útskýrt það og skal endurtaka það: Ég hef ekki haft samband við neinn, ég hef ekki undirbúið neina lýsingu á sölu bankanna og það hefur enginn haft samband við mig og lýst áhuga á því að eignast þessa banka. Ég hef sagt að þegar við seljum þá eigum við að gera það í góðri sátt, gera það eftir reglum sem góð sátt er um og í opnu og gagnsæju ferli. Það tel ég að sé afar mikilvægt. Ég held að sé mikilvægt að þegar við seljum bankana í þetta sinn þá endurtökum við ekki mistökin sem gerð voru þegar bankarnir voru seldir síðast.