146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

mismunandi áherslur í ríkisstjórn.

[15:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég sagði þetta vissulega. Og ég hef sagt það áður en ég settist á Alþingi að ég teldi að það væri mjög mikilvægt að við litum á Alþingi ekki bara sem meiri og minni hluta heldur litum á það sem 63 manna löggjafarsamkomu þar sem allir gætu lagt sitt af mörkum. Ég hef átt allmörg samtöl við hv. þingmann mér bæði til gagns og ánægju. Ég hef átt allnokkra fundi með formönnum minnihlutaflokkanna þar sem við höfum rætt saman um ákveðin stórmál. Ég held að við gætum alveg gert meira af því. Ég held að það væri gott fyrir þingstörfin ef menn væru duglegri að leggja ákveðin mál á borðið og segja: Getum við ekki náð saman um þetta þvert á meiri og minni hluta?