146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

peningamálastefna.

[15:49]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Fjármála- og efnahagsráðherra þykir gaman að ræða við erlenda fjölmiðla og hefur upp á síðkastið farið í nokkur slík viðtöl þar sem hann kemur á framfæri stefnu ríkisstjórnarinnar í ýmsum málum, til að mynda peningastefnunni. Hins vegar finnst okkur hinum þetta ekkert sérlega skemmtilegt því að þetta rýrir trúverðugleika Íslands út á við. Í viðtali við Financial Times um helgina segir fjármálaráðherra að það sé óverjandi fyrir Ísland að viðhalda eigin fljótandi mynt nokkrum dögum eftir að fjármagnshöft hafa verið afnumin. Þessi ummæli eru með miklum ólíkindum. Eins og staðan er í dag er hæstv. fjármálaráðherra að bjóða upp á algjöra óvissuferð er varðar peningastefnuna og svo virðist hæstv. ráðherra ætla sér að tala gjaldmiðilinn niður á alþjóðavísu. Viðtalið við FT er svo furðulegt að mér datt í hug hvort það gæti hugsanlega verið einhver meiri dýpt í þessu, hvort hæstv. fjármálaráðherra væri sjálfur að gera sig að einhvers konar þjóðhagsvarúðartæki sem virkar þannig að þegar krónan er sterk ætlar hann bara að mæta sjálfur og tala hana niður og svo þegar hún er veik ætlar hann að mæta sjálfur og tala hana upp. Ég er að velta fyrir mér hvort peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands viti af þessu nýja tæki ráðherrans.

Virðulegur forseti. Nú hefur verið skipuð þriggja manna verkefnisstjórn um að endurmeta peningastefnu Íslands. Mig langar að spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra:

1. Er ekki faglegri nálgun að bíða eftir niðurstöðum verkefnisstjórnarinnar áður en ráðherrann tjáir sig með þessum hætti?

2. Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar eru algjörlega ósammála um framtíðarskipan peningastefnu þjóðarinnar og því spyr ég hvort hæstv. fjármálaráðherra finnist heiðarlegt af sér gagnvart þjóðinni að sitja í ríkisstjórn þar sem er svo mikill skoðanamunur um eitt helsta hagsmunamál þjóðarinnar eins og peningastefnuna.

3. Ef hæstv. fjármálaráðherra var misskilinn og orð hans tekin úr samhengi, væri þá ekki ráð að leiðrétta þennan (Forseti hringir.) misskilning, eins vandræðalegt og það er nú?