146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

peningamál og sala Arion banka.

[15:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Mér finnst athyglisverð sú undirliggjandi skoðun sem í spurningunni felst, hvort það sé óviðunandi að við búum við núverandi ástand. Er það viðunandi að krónan fljóti upp og niður eins og skopparakringla? Er það viðunandi að útgerðarfyrirtæki fái miklu lægra verð fyrir sínar afurðir en þau fengu áður? Er það viðunandi að sjómenn fái núna ekki nema brot af þeim launum sem þeir fengu áður, jafnvel þó að verðið í erlendri mynt sé það sama? Er það viðunandi að ferðaþjónustan sem við erum að byggja upp sé sífellt að selja á einu verði en fái síðan miklu færri krónur fyrir þegar upp er staðið? Er það viðunandi að innlend iðnaðarfyrirtæki þurfi að búa við það að verð hjá keppinautunum sé sífellt að lækka?

Ég segi: Nei, það er ekki viðunandi, það er óviðunandi ástand. Það er mín skoðun. Það kann að vera að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Lilja Alfreðsdóttir séu þeirrar skoðunar að þetta sé viðunandi. Það er ekki mín skoðun.

Varðandi þá spurningu hvort það sé rétt og eðlilegt að kröfuhafar í bankana selji sjálfum sér bankann verð ég að segja að það voru settar um þetta ákveðnar reglur í tíð síðustu ríkisstjórnar og mér skilst að þeim reglum hafi verið framfylgt. Ég hef lagt fram fyrirspurn til Fjármálaeftirlitsins um þessa kröfuhafa og ég vænti þess að fá svör við þeirri fyrirspurn fljótlega.