146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

lífræn ræktun.

253. mál
[16:03]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég spyr hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í þessum fyrirspurnatíma um lífræna ræktun. Þá í fyrsta lagi hvort ráðherra telji að lífræn ræktun njóti nægilegs stuðnings í regluverki landbúnaðarins eins og það liggur fyrir og svo hins vegar hvaða þýðingu hún telji að lífræn ræktun geti haft fyrir þau loftslagsmarkmið sem Ísland hefur sett sér.

Stuðningur við lífræna ræktun hefur vissulega verið aukinn verulega í nýjum búvörusamningi sem er ánægjuefni. En betur má ef duga skal. Þær þjóðir sem mesta áherslu hafa lagt á að hvetja til aukinnar lífrænnar framleiðslu hafa í fyrsta lagi sett sér markmið, að svo eða svo stór hluti landbúnaðarframleiðslunnar verði orðinn lífrænn, t.d. 20% fyrir árið 2020, og fylgt því eftir með myndarlegum stuðningi. Má þar nefna Danmörku og Austurríki sem dæmi. Danir hafa reyndar nýlega ákveðið að stefna að því að allur danskur landbúnaður verði orðinn lífrænn árið 2025. Aðalástæðan er veruleg mengun grunnvatns, aðallega vegna notkunar tilbúins áburðar þannig að ómengað grunnvatn er ekki lengur til í landinu. Önnur mikilvæg rök fyrir aukningu innlendrar hlutdeildar lífrænnar framleiðslu er í fyrsta lagi sívaxandi eftirspurn eftir lífrænum matvælum og að verulegur skortur er á algengustu tegundum þannig að flytja þarf inn lífrænt ræktað grænmeti stóran hluta ársins. Til dæmis eru vart fáanlegar innlendar lífrænar gulrætur, rófur, kartöflur, hvítkál, eftir að uppskeru er lokið á hausti. Þetta eru tegundir sem auðvelt er að rækta hérlendis og geymast vel og gætu þar af leiðandi verið á boðstólum langt fram eftir vetri eða fram á vor ef framleitt væri nóg af þeim hér innan lands.

Varðandi síðan spurninguna hvort lífræn ræktun geti haft sérstaka þýðingu fyrir þau loftslagsmarkmið sem Ísland hefur sett sér, má nefna að sú aðgerð sem myndi sennilega skila mestum árangri til kolefnisbindingar á Íslandi er einmitt lífrænn landbúnaður. Tvær rannsóknir eru fyrirliggjandi, sem mér væri ljúft að deila með hæstv. ráðherra, sem gerðar hafa verið á þessu sviði en lífræn ræktun er umhverfisvænsta og sjálfbærasta form landbúnaðar sem til er. Sú aðgerð sem myndi þess vegna skila sennilega mestum árangri væri lífrænn landbúnaður. Í þessum rannsóknum kemur fram að ef allur landbúnaður á jörðinni yrði lífrænn dygði það eitt til að binda alla núverandi kolefnislosun af mannavöldum. Ferlið í lífrænni ræktun er í stuttu máli þannig að þar á sér stað uppbygging gróðurmoldar og byggingarefni gróðurmoldarinnar eru einmitt kolefnissambönd. En í venjulegri nútímaræktun með kemískum efnum verður niðurbrot þessara efnasambanda eins og gróðurmoldarinnar og þar með veruleg losun kolefnis út í andrúmsloftið.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um þetta tvennt, sem sagt um lífrænan landbúnað í regluverkinu og síðan lífrænan landbúnað sem þátttakanda í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en ekki síst þá með hliðsjón af væntanlegri endurskoðun búvörusamnings.