146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

lífræn ræktun.

253. mál
[16:15]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda, Svandísi Svavarsdóttur, fyrir góða fyrirspurn og fagna jákvæðum tónum í svari hæstv. ráðherra. Ég hef heyrt þá áður og held að þar sé eitthvað sem hægt er að byggja á ef við vöndum til verka. Ég held að það eigi að vera í forgrunni í þeirri endurskoðun búvörusamninga sem er hafin, eða liggur fyrir og á að gera samkvæmt síðasta samningi fyrir árið 2019, að skoða umhverfismálin, að nálgast landbúnaðinn út frá umhverfissjónarmiði. Það þarf að meta vistspor hans og ekki bara landbúnaðarins sjálfs heldur líka verslunarinnar sem honum tengist, þ.e. innflutnings á afurðum sem hann nýtir eða eru seldar í samkeppni við hann. Það þarf með öðrum orðum, ef ég nota þetta leiðinlega orð pólitíkusa, að horfa heildrænt á málaflokkinn. Það er það sem þarf að gera, einmitt með loftslagsmálin í huga.