146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

lífræn ræktun.

253. mál
[16:18]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu sem er mikilvæg. Ég vil líka draga fram að hæstv. umhverfisráðherra er að skoða ákveðna þætti sem eru tengdir landbúnaði í gegnum aðgerðaáætlunina. Eftir stendur einnig að í mínu ráðuneyti, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, erum við að skoða þetta mjög gaumgæfilega. Mér fannst ánægjulegt og ótrúlega gaman í síðustu viku að vera á landsfundi sauðfjárbænda þar sem kom fram þessi skýra framtíðarsýn, mjög horft til umhverfismála, horft á umhverfisþættina, kolefnisjöfnunina og hvernig þeir vilja sjá fyrir sér lífrænan landbúnað á sviði sauðfjárræktar. Þetta er eitthvað sem við stjórnmálamenn eigum að taka á lofti þegar við finnum þennan mikla samstarfsvilja og framsýni.

Ég er sammála hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé að það er iðulega betra að horfa heildstætt á málin, en stundum er gott að taka ákveðin afmörkuð verkefni í tilraunaskyni. Ég velti því fyrir mér að stofna hóp, því að fleiri þingmenn hafa lýst yfir áhuga á því, með sauðfjárbændum sem tæki sauðfjárræktina eingöngu til skoðunar, skipaðan kannski tveimur héðan af þinginu, úr stjórn og stjórnarandstöðu, og lýsi mig reiðubúna til að skipa strax hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur sem er hokin af reynslu, ég er tilbúin í það. Ég veit það eru fleiri sem hafa lýst yfir áhuga. Ég myndi þá aðeins athuga þetta. Ég held að þetta sé mikilvægt. Ég sé fyrir mér að það væri hægt að skipa þriggja til fimm manna starfshóp um þetta sem gæti unnið hratt því að við erum nokkurn veginn með markmiðin skýr. Ég held að bændur myndu jafnframt fagna þessu og þeir ættu eðlilega sína fulltrúa í slíkum hópi sem gæti síðan verið til stuðnings aðgerðaáætlunarinnar, vinnunnar þar, en líka til stuðnings endurskoðunarnefnd um búvörusamninga þar sem við erum að skoða hvernig hægt er að færa hluta af beingreiðslum og fleira yfir í ræktunarsamninga o.s.frv. Það er fullt af tækifærum. Ég þakka enn og aftur fyrir þessar undirtektir og leita til samráðs við ykkur.