146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

umhverfisáhrif og sjálfbærni byggingariðnaðar.

279. mál
[16:21]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra um umhverfisáhrif og sjálfbærni byggingariðnaðarins og spyr ráðherrann hvernig hún telji að gera megi byggingariðnað hér á landi vistvænni og sjálfbærari. Ég tel rétt að spyrja ráðherrann um þetta, ég vil gjarnan að ráðherrann nálgist þau verkefni sem snúa að skipulags- og mannvirkjagerð í ráðuneytinu af krafti. Það eru mjög mikilvæg verkefni sem snúa að byggingariðnaðinum og ég veit að ráðherrann hefur verið mjög áhugasamur um umhverfisáhrif og sjálfbærni. Það er talið að kolefnisspor byggingariðnaðarins sé gífurlegt og á heimsvísu hefur verið kastað fram tölum um að byggingariðnaðurinn sé ábyrgur fyrir um 30% af losun gróðurhúsalofttegunda og noti um 40% af framleiddri orku í heiminum. Ég hef hins vegar rekist á stefnumörkun breskra stjórnvalda þar sem þau fjalla um byggingariðnaðinn í Bretlandi og þau tala jafnvel um hærra hlutfall þegar kemur að kolefnissporinu þar í landi og líka notkun á t.d. vatni sem virðist vera mjög mikil, svo ég tali ekki um úrgangsefni sem verða eftir til urðunar.

Fyrir stuttu var haldið málþing þar sem fjallað var um loftslagsmál og sjálfbærni í byggingariðnaði. Ég renndi í gegnum, til undirbúnings þessari umræðu og fyrirspurninni, ræðu hæstv. ráðherra en mér fannst mjög lítið koma fram í henni um það hvernig hún sér fyrir sér að hægt sé að gera íslenskan byggingariðnað sjálfbærari, umhverfisvænni. Það kom fram að Framkvæmdasýslan hefur verið ákveðinn frumkvöðull hér á landi varðandi það að leggja áherslu á vistvæn sjónarmið en mun minna hins vegar var um það hvað byggingariðnaðurinn sjálfur hefur verið að gera. Þó að ég hafi í undirbúningi fyrir þessa umræðu rekist á önnur málþing, ég held að það elsta hafi verið frá 2002, þar sem talað var um sömu þætti, og maður sér líka að þetta er stór hluti af vinnu annarra landa í kringum okkur, þá virðist sem mun minna hafi verið hugað að þessu hér á landi. Ég hef mikinn áhuga á að heyra frá ráðherranum hvað hún sér fyrir sér að gert verði hvað þetta varðar, hvernig við getum lagt minni áherslu á skammsýni, hraða og græðgi þegar kemur að byggingum, hvernig við getum hugað að sjálfbærnisjónarmiðunum en líka hvers konar aðstæður við búum við hér og hvaða þættir það eru sem við þurfum ekki í sama mæli að huga að eins og hugsanlega vatnsnotkunin, eins og víðast hvar annars staðar.