146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

umhverfisáhrif og sjálfbærni byggingariðnaðar.

279. mál
[16:24]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina og tek undir með hv. fyrirspyrjanda. Það er ýmislegt enn ógert og þegar við ræðum, eins og er nú dálítið í tísku eða mikið rætt, um byggingarreglugerð og byggingarhraða og vöntun á húsnæði þá held ég að við verðum að muna líka að hér þarf að vera eitthvert jafnvægi á hraðanum og svo gæðunum því að við ætlum að hafa byggingarnar endingargóðar, þannig að byggt sé til framtíðar. Ég tel ýmsar leiðir færar til að gera byggingariðnaðinn hérlendis vistvænni og sjálfbærari. Þó er ekki nóg að breyta lögum og reglugerðum til þess, húsbyggjendur verða líka að upplifa að vistvænar og sjálfbærar byggingar séu það sem koma skal, ekki bara opinberar byggingar heldur allt húsnæði. Í dag eru það svo til eingöngu opinberar byggingar sem eru byggðar samkvæmt vistvænum stöðlum og vottaðar sem slíkar. Þarf því að miðla meiri fræðslu til byggingariðnaðarins og það var einmitt gert á umræddu málþingi sem hv. þingmaður vísar hér til og ég opnaði. Það þarf meiri fræðslu um gildi þess að byggja vistvænt umfram hefðbundið, t.d. hvernig hægt er að lágmarka kolefnisspor og draga úr auðlindasóun á byggingarferlinu og yfir líftíma byggingarinnar með því að hafa sjálfbærnimarkið alltaf í forgrunni.

Það þarf einnig að skoða hvort ekki sé orðið tímabært að útfæra sérstakt íslenskt umhverfisvottunarkerfi fyrir byggingar á Íslandi í stað þess að nota erlend vottunarkerfi sem falla misvel að okkar aðstæðum. Ég veit til þess að mikið er horft til breska kerfisins en við erum með aðra þætti sem þarf að huga að en orkunotkun t.d., sem er mikið áhersluatriði þar.

Ef ég tæpi aðeins á regluverkinu sem ætlað er að beina að byggingariðnaðinum, beina honum í grænni átt, er þar fyrst að nefna að öll mannvirkjagerð skal uppfylla skilyrði laga nr. 160/2010, um mannvirki, og reglugerðir sem eru settar samkvæmt þeim. Það er mikilvægt að vanda til hönnunar, efnisvals og frágangs með endingu mannvirkjanna í huga. Með auknum gæðum eykst ending og notagildi mannvirkja og þar með er dregið almennt úr þörf á endurgerð og viðhaldi sem hefur neikvæð umhverfisáhrif. Samkvæmt ákvæðum kafla byggingarreglugerðar nr. 112/2012, um efnisval og úrgang, skal eftir því sem aðstæður leyfa velja endurunnið og endurnýtanlegt byggingarefni og úrgangi skal haldið í lágmarki. Einnig er mælst til þess að gerð sé lífsferilsgreining vegna nýrra mannvirkja, viðbygginga, endurgerðar mannvirkja og meiri háttar viðhalds.

Það þótti víst ekki rétt á sínum tíma þegar unnið var að reglugerðinni að gera fortakslausa kröfu um gerð lífsferilsgreiningar. Þess í stað er um tilmæli að ræða sem voru sett með það í huga að opinberir aðilar yrðu meðal þeirra fyrstu sem gerðu kröfu um lífsferilsgreiningu við framkvæmdir á sínum vegum. Þannig yrði til hagnýt þekking hjá ráðgjöfum sem gera mætti kröfu til síðar við almennar framkvæmdir. Á þann hátt væri ekki verið að auka kostnað hins almenna framkvæmdaraðila.

Þá eru ákvæði 15. hluta byggingarreglugerðar sem fjalla um mengun frá mannvirkjum og meðhöndlun byggingar- og niðurrifsúrgangs almennt til þess fallin að stuðla að vistvænum og sjálfbærum byggingariðnaði í landinu. Það er líka mikilvægt að leggja áherslu á menntun og faglega þekkingu þeirra aðila sem starfa innan iðnaðarins, þá sérstaklega hönnuða og iðnmeistara. Þeir þurfa að kunna góð skil á fjölbreyttum ábata vistvænna bygginga umfram hefðbundnar og beina byggingargerðunum hratt og örugglega í þá áttina. Vönduð vistvæn hönnun, efnisval og frágangur eykur ekki eingöngu endingu mannvirkja heldur leggur undirstöðu að grænni og loftslagsvænni framþróun í byggingaraðferðum.