146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

umhverfisáhrif og sjálfbærni byggingariðnaðar.

279. mál
[16:31]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta er mikilvæg umræða sem á sér hér stað um fyrirspurn um það hvernig gera megi byggingariðnað á Íslandi vistvænni og sjálfbærari. Það er greinilegt af því sem kom fram í svari ráðherra að þó svo að ýmislegt sé í lögum þá þarf að gera betur. Það er mjög brýnt að ráðast til verka því að þetta er stór partur af því hvernig við ætlum að ná tökum á losun gróðurhúsalofttegunda.

Ég var ánægð með að hæstv. ráðherra skyldi líka tala um það að byggingarnar þyrftu að endast, vegna þess að það held ég að muni skipta gríðarlega miklu máli varðandi sjálfbærnina inn í framtíðina. Ég ætla að leyfa mér að vísa í fjármálaáætlun hæstv. ríkisstjórnar þar sem kemur fram að það er markmið að fleiri einstaklingar sem eru 80 ára og eldri geti búið í eigin húsnæði, stefnt er að 85% árið 2022. Það þarf aldeilis að sjá til þess að þar verði aðgengilegar íbúðir. Það þarf að byggja þannig í dag, til þess að það markmið geti náðst.